Kundalini jóga og streita

Eftir Guðrúnu Darshan

Streita er algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum, samkvæmt niðurstöðu fjölda rannsókna þar sem hún er meginorsök hjartaáfalls og stuðlar að mörgum öðrum sjúkdómum þar á meðal ofnotkun eiturlyfja. Þreyta og streita eru sögð vera algengustu vandamálin sem hrjá okkar heimshluta. Önnur vandamál eru oft afleiðing þeirra; eins og þunglyndi, kvíði, offita, svefnleysi og  einbeitingarskortur. Algengasta leiðin til að takast á við streitu er að meðhöndla einkennin með því að taka inn róandi lyf, drekka áfengi, reykja, borða of mikið eða horfa á sjónvarpið. Í framhaldinu þurfum við að fá örvun, eins og kaffi eða sykur til að bæta upp orkumissinn eða til að vekja okkur upp af dvalanum.  Þetta er eins og að keyra með annan fótinn á bensíninu og hinn á bremsunni, ef við líkjum vélinni við hjartað og nýrnahetturnar.

Við erum meira en hugur og líkami
Ef við ætlum að læra að lifa með öllu því áreiti sem nútímasamfélag innifelur og halda viti og heilsu er mikilvægt að læra að takast á við streitu. Við höfum tilhneigingu til að loka augunum fyrir því sem við finnum og flýja veruleikann. Samfélagið býður okkur endalausa möguleika á að flýja okkur sjálf. Auk þess höfum við tilhneigingu til að nálgast heiminn vitrænt, með huganum en meirihlutinn af okkur sjálfum verður eftir fyrir utan. Við þurfum að innlima andlega þáttinn í okkur sjálfum og upplifa heiminn meira innanfrá í stað þess að loka okkur inni í huganum. Þegar við viðurkennum og upplifum óendanleikann innra með okkur sjálfum, við getum kallað það Guðsneistann eða uppsprettuna innra með okkur, þá höfum við lykilinn að innra friði og hamingju.

Kundalini jóga
Kundalini jóga er aldagömul tegund af jóga og býður upp á mjög virkar leiðir til að takast á við streitu og álag nútímans. Það er hannað fyrir venjulegt fjölskyldufólk sem lifir erilssömu lífi og hefur ekki of mikinn tíma aflögu né eirð í sér til að setjast niður mitt í öllu álaginu og slaka á eða hugleiða tilgang lífsins. Mikið af því jóga sem er í boði er upphaflega sniðið að þörfum þeirra völdu að helga líf sitt andlegri iðkun, æfingar sem hjálpuðu þeim að sitja lengur í hugleiðslu. Kundalini jóga er byggt upp á æfingum sem hjálpa okkur markvisst að örva innkirtlakerfið, lyfta orkunni okkar svo við náum að finna þessa innri gleði sem er okkur eiginleg og að takast á við líf okkar af æðruleysi og innri styrk.  Það er bæði byggt upp á líkamlegum æfingum sem koma okkur í gott líkamlegt form, öndunaræfingum sem hreinsa, auka orkuflæðið og tengja okkur betur við okkur sjálf. Kundalini hugleiðsla er aðgengileg fyrir alla, líka þá sem eru ekki vanir að hugleiða. Og það byggir á æfingum sem koma jafnvægi á heilahvelin og á orkustöðvarnar.

“Streita rænir þér frá sjálfum þér”, segir Yogi Bhajan sem færði Vesturlandabúum kundalini jóga.

Fólk sem lifir undir miklu álagi þarf vissulega að þjálfa líkamann og halda honum í góðu formi, það getur til dæmis fyrirbyggt vöðvabólgu og byggt upp almennt úthald. En það er ekki nóg að koma sér í gott form ef það bitnar á heildinni. Taugakerfið, nýrnahetturnar, ónæmiskerfið eru þegar undir álagi ef við búum við streitu. Við þurfum líka að hugsa um að hlaða batteríin og næra andann. Ef við hugsum um heildina þá skilar það sér í auknum afköstum og betri líðan.

Algerlega samstillt slökun læknar líkamann
Kundalini jóga kennir okkur leiðir til að vekja kraftinn innra með okkur og auka meðvitund okkar um þá ávana sem við höfum tamið okkur. Hver tími byggir á seríu af æfingum, sem kallast kría og hafa ákveðið markmið eins og að koma jafnvægi á lifrina eða meltinguna, bæta svefninn eða byggja upp styrk. Hver kría hefur líka áhrif á heildina og þess vegna erum við endurnærð og í jafnvægi á eftir.

Kundalini er vitund okkar. Hún liggur í dvala í öllum manneskjum og undir ákveðnum kringumstæðum vaknar hún. Þegar það gerist vöknum við og þekkjum okkar sanna sjálf.  Það er reynsla sem ekki er hægt að lýsa, og hver og einn upplifir hana á sinn hátt.

Yogi Bhajan sem áður var nefndur hefur líka sagt; “Algerlega samstillt slökun læknar líkamann.” Til þess að svo megi verða þarf samvinnu milli allra þriggja þáttanna í okkur sjálfum; líkama, hugar og sálar.”  Okkur er ekki kennt það í skólum. Við verðum sjálf að sækja okkur þá þekkingu. Andinn er sterkari en líkaminn,  ef við ræktum hann.