Með sand milli fingranna og frið í hjarta

Ég nýkomin úr ferðalagi til Nice með dóttur minni og barnabörnunum. Það eru svo dásamleg forréttindi að fá að ferðast með sínum nánustu og njóta sælu og samveru. Ég nýt þess alveg sérstaklega að gleyma mér í leik með barnabörnunum mínum. Við áttum eina mjög nærandi stund saman við sjóinn þar sem við byggðum saman sandkastala. Við völdum honum stað við flæðarmálið þar sem var nóg af sandi og ekki möl. Kastalinn tók smám saman á sig mynd og við kepptumst við að bæta utan á hann. Og öldurnar hjálpuðu til og gerðu veggina silkimjúka en um leið saxaðist alltaf aðeins á hann. 

Dans kjarnans og lífsins

Kvöldið áður hafði ég lesið fallega hugleiðingu eftir Mark Nepo um hverfulleika lífsins. Hún var á þessa leið…

Innra með hverri manneskju er óspilltur staður, laus við væntingar og eftirsjá, metnað og sektarkennd, ótta og áhyggjur. Þangað sækjum við frið. Ef við þekkjum þennan stað þá vitum við hver við erum. Við lærum að þekkja hann í gegnum það að dvelja þar. Lífið sem við lifum er stöðugt að heilla okkur burtu af þessum stað og hylja hann með filmu af minningum og menningu okkar, áföllum og erfiðleikum. Á sama tíma er lífið líka að pússa okkur til. 

Ég fann fyrir sandinum undir höndunum, hlustaði á öldurnar skella á ströndinni og á hlátur og ákafa barnanna og fann hvernig ég settist inn í andartakið. Við héldum áfram að leika okkur með hafinu, af einbeittri gleði og létum það ekki trufla okkur þó hafið væri hægt og sígandi að brjóta niður sköpunarverk okkar. 

Þessi samvinna fékk mig til að hugsa til þess hvernig lífið er alltaf að vinna með okkur. Áreiti og erfiðleikar, eins og öldurnar eru líka að pússa okkur til. Aðstæður og hlutverk breytast. Og það að takast á við breytingarnar færir okkur nær kjarnanum. Þegar ég las aftur orð Mark Nepo um kvöldið fann ég enn betur fyrir dýpt orða hans:

Með tímanum, þegar yfirborðið nuddast af, birtast stundir skýrrar nærveru. Augnablik þar sem við finnum kjarnann í okkur sjálfum og finnum taktinn að nýju.

Taktur líkamans

Þegar við gefum okkur rými til að hlusta, ekki bara á hugsanir okkar, heldur líka á líkamann, skynfærin, andardráttinn og hjartsláttinn – þá finnum við okkar eigin takt. Takt lífsins. 

Konur hafa tilhneigingu til að samsama sig hlutverkum sínum. Þess vegna skynjum við breytingar oft djúpt – ekki bara í líkamanum heldur líka í sjálfsmynd og daglegum takti.

Tækifæri á tímum breytinga

Breytingaskeiðið getur tekið okkur úr takti og skapað rótleysi innra með okkur. Þetta er tími umbreytinga í líkamanum – og líka tími þar sem samband okkar við okkur sjálfar og lífið í kringum okkur er að breytast.

En einmitt þess vegna er þessi tími líka tækifæri – til að finna taktinn að nýju. Til að tengja aftur við kjarnann í okkur sjálfum.

Ég býð þér að vera með mér á fríu netnámskeiði í október:
Bætt líðan á breytingaskeiði – finndu þinn takt. 

Við skoðum hvað gerist í líkamanum á breytingaskeiði, hvernig við getum unnið með honum í stað þess að vinna gegn honum – og hvernig við getum skapað meiri ró og orku í daglegu lífi. Um leið verður þetta tækifæri til að heyra í öðrum konum á sömu vegferð. Ef þú vilt vera með þá geturðu skráð þig hér

Flokkar

Nýjast

Litrík seigla

Litrík seigla

Þegar haustar er nóg að gera við að koma öllu í skorður og finna taktinn upp á nýtt. Ég þarf að hafa mig alla við að að setja tímanum mörk og ætla mér ekki of mikið. Að ýta til hliðar og forgangsraða. Ég tala við verkefnin og segi þeim að þau þurfi að bíða aðeins...

Að finna bragðið af lífinu

Að finna bragðið af lífinu

Í starfi mínu og í daglegu lífi hef ég lært að meta hversu dýrmætt það er að eiga stundir þar sem ég tengist líkamanum beint. Að finna það sem er hér og nú. Ekki það sem ég hugsa um það sem ég upplifi, heldur það sem ég skynja. Þetta er eitt það einfaldasta – og samt...

Nærandi grillmáltíð

Nærandi grillmáltíð

Nú er Verslunarmannahelgin framundan og þrátt fyrir rigningaspá finnst mörgum gott að kveikja á grillinu og njóta máltíðar saman. Grill þarf þó ekki endilega að þýða hamborgarar og pylsur – það getur líka verið skemmtileg leið til að elda grænmeti. Best er þegar við...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.