Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna okkur að takast á við og heiðra breytingar. Að gefa okkur tíma til að syrgja það sem var svo við getum umfaðmað það nýja. Að hlusta á það sem gerist innra með okkur.

Það er mjög verðugt verkefni að þjálfa þennan vöðva og geta tekist á við álag og breytingar af æðruleysi.

Þegar álagið er mikið finn ég oft að áhyggjur eiga greiðari aðgang að mér og ég fer jafnvel að trúa neikvæðari röddunum innra með mér. Þá er til dæmis rödd sem verður mjög hávær, sem vill ekki að ég slái slöku við. Hún er með langan lista af verkefnum í eftirdragi og vill helst að ég klári þau strax. Ef ég gef mér tíma til að hlusta, þá fer ég að heyra margar ólíkar raddir innra mér sem allar eru með sínar þarfir og sinn tón. Og þær eru ekki endilega allar sammála. Ef ég gef þeim rými til að tjá sig þá slaknar oft á þeim. Þær fara að tjá sig á heilbrigðari hátt. Og ég fer að heyra betur í hinum, jákvæðari röddunum innra með mér. Lífið verður litríkara og heimurinn innra með mér fer smám saman að stilla sig í meiri samhljóm. .

Um leið fer ég að taka eftir því hvernig sólin glitrar í skýjunum. Hvernig andardrátturinn býður mér að finna lífið í allri sinni dýpt. Hann kennir mér að slaka á öxlunum og faðma það sem er. Ég finn jörðina sem gefur mér til kynna að ég er velkomin, að það sé alltaf eitthvað sem er stöðugt undir fótunum. Líka þegar allt er að breytast. Hún minnir mig á að hugrekki er ekki bara fólgið í að halda áfram í gegnum erfiðleikana. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta.  

Dagleg hugleiðsla hefur kennt mér að gefa eftir og finna fyrir lífinu í gegnum storma lífsins. Að vera til staðar fyrir það sem hreyfist innra með mér. Ég finn aftur taktinn í hjartanu og get haldið betur utan um sjálfa mig. Breytingar eru óhjákvæmilegar. Ég á val um hvernig ég mæti þeim og hvernig ég hlúi að sjálfri mér þegar lífið verður krefjandi

Flokkar

Nýjast

Með sand milli fingranna og frið í hjarta

Með sand milli fingranna og frið í hjarta

Ég nýkomin úr ferðalagi til Nice með dóttur minni og barnabörnunum. Það eru svo dásamleg forréttindi að fá að ferðast með sínum nánustu og njóta sælu og samveru. Ég nýt þess alveg sérstaklega að gleyma mér í leik með barnabörnunum mínum. Við áttum eina mjög nærandi...

Litrík seigla

Litrík seigla

Þegar haustar er nóg að gera við að koma öllu í skorður og finna taktinn upp á nýtt. Ég þarf að hafa mig alla við að að setja tímanum mörk og ætla mér ekki of mikið. Að ýta til hliðar og forgangsraða. Ég tala við verkefnin og segi þeim að þau þurfi að bíða aðeins...

Að finna bragðið af lífinu

Að finna bragðið af lífinu

Í starfi mínu og í daglegu lífi hef ég lært að meta hversu dýrmætt það er að eiga stundir þar sem ég tengist líkamanum beint. Að finna það sem er hér og nú. Ekki það sem ég hugsa um það sem ég upplifi, heldur það sem ég skynja. Þetta er eitt það einfaldasta – og samt...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.