Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna okkur að takast á við og heiðra breytingar. Að gefa okkur tíma til að syrgja það sem var svo við getum umfaðmað það nýja. Að hlusta á það sem gerist innra með okkur.
Það er mjög verðugt verkefni að þjálfa þennan vöðva og geta tekist á við álag og breytingar af æðruleysi.
Þegar álagið er mikið finn ég oft að áhyggjur eiga greiðari aðgang að mér og ég fer jafnvel að trúa neikvæðari röddunum innra með mér. Þá er til dæmis rödd sem verður mjög hávær, sem vill ekki að ég slái slöku við. Hún er með langan lista af verkefnum í eftirdragi og vill helst að ég klári þau strax. Ef ég gef mér tíma til að hlusta, þá fer ég að heyra margar ólíkar raddir innra mér sem allar eru með sínar þarfir og sinn tón. Og þær eru ekki endilega allar sammála. Ef ég gef þeim rými til að tjá sig þá slaknar oft á þeim. Þær fara að tjá sig á heilbrigðari hátt. Og ég fer að heyra betur í hinum, jákvæðari röddunum innra með mér. Lífið verður litríkara og heimurinn innra með mér fer smám saman að stilla sig í meiri samhljóm. .
Um leið fer ég að taka eftir því hvernig sólin glitrar í skýjunum. Hvernig andardrátturinn býður mér að finna lífið í allri sinni dýpt. Hann kennir mér að slaka á öxlunum og faðma það sem er. Ég finn jörðina sem gefur mér til kynna að ég er velkomin, að það sé alltaf eitthvað sem er stöðugt undir fótunum. Líka þegar allt er að breytast. Hún minnir mig á að hugrekki er ekki bara fólgið í að halda áfram í gegnum erfiðleikana. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta.
Dagleg hugleiðsla hefur kennt mér að gefa eftir og finna fyrir lífinu í gegnum storma lífsins. Að vera til staðar fyrir það sem hreyfist innra með mér. Ég finn aftur taktinn í hjartanu og get haldið betur utan um sjálfa mig. Breytingar eru óhjákvæmilegar. Ég á val um hvernig ég mæti þeim og hvernig ég hlúi að sjálfri mér þegar lífið verður krefjandi






