Sumarsamhljómur

Nokkrar hugleiðingar um sumarið og gjafir sumarsins

Sumarsamhljómur
… er þegar ég finn taktinn minn renna saman við takt náttúrunnar. Við verðum eitt. Náttúran hjálpar mér að finna – að skynja – líka það sem mér finnst vanta. Það sem ég sakna.
Andstæðan við samhljóm er óreiða, ósamræmi, streita og álag. Eins og mörg hljóðfæri sem spila ekki í sama takti.

Sumarið er tíminn þar sem við finnum aftur taktinn og hljómum saman. Samvera, samruni. Við frumefnin. Samhljómur í frumunum.

Sumarsamhljómur er…
… suð í flugum, þytur í hrossagauk, birtan frá gulum fíflum og sóleyjum sem kallast á við blágresið.
Blaktandi tjald í morgunsól, þyturinn í trjánum.
Börn sem vilja pissa í grasinu en neita að kúka nema heima hjá sér.
Ilmurinn af grilli og sundsprettur í rigningu.
Regnið sem bylur á þakinu og sólin sem er búin að brenna húsið og pallinn svo nú þarf að mála.
Jóga í lautinni og sumarhugleiðsla með hreinsandi birtu og kyrra hryggsúlu.
Forvitnir fuglar sem fljúga upp um leið og augu mín opnast.

Fossar og flúðir. Börn sem veiða fiðrildi í háfana sína og skvaldra öll í einu.
Krumminn sem óvænt birtist og flýgur fram hjá með þungu vængjataki.
Tími til að lesa bækur og ský.
Þurrkað blóðberg og maríustakkur í tebolla.
Jurtir í olíu sem gefa frá sér græðandi safa í smyrsl fyrir veturinn.
Þykkir sokkar og fjallgönguskór.
Fjallgöngur sem taka í lærin og opna skilningarvitin.
Gola í fangið og sól í hnakkann.
Vindur sem feykir burtu streitu og rigning sem skolar burtu áhyggjum.

Tími til að syrgja.
Pabbi að tala til mín í gegnum trén sem hann gróðursetti.
Muna hvað hann langaði að finna aftur lífskraftinn sem var að dvína.
Muna að lifa til fulls.

Sumarsamhljómur er að drekka í sig birtuna svo við eigum birgðir fyrir veturinn.
Að syngja með birtunni og muna myrkrið, svo ég sé undirbúin.
Djúpur andardráttur og ís. Grænt salat og ferskar gulrætur.
Að hlusta eftir því sem ég þarf – sem er stundum ekki það sama og mig langar.

Sumarsamhljómur er lífið í öllum sínum litum.

Hvernig hljómar þitt sumar?

Hvað þarftu til að upplifa samhljóm – með náttúrunni, líkamanum. Með lífinu?

Ef þú hefur áhuga á fleiri hugleiðingum um sumarið og um tengsl líkama og lífsflæðis, þá gæti þessi pistill líka átt erindi við þig: Heilsan og fríið

Flokkar

Nýjast

Heilsan og fríið

Heilsan og fríið

Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf....

Að lifa ríkulega

Að lifa ríkulega

Ef ég gæti gefið þér eitthvað dýrmætt þá væri það líf sem er ríkt af prönu, lífsorku. Prana er orð sem kemur úr sanskrít og merkir bæði öndun og lífsorka. Orkan sem bæði hugurinn og líkaminn nærast á. Prana er lífgjafinn þinn. Með næga prönu hefurðu hæfileikann til...

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði er mjög algengur fylgifiskur á breytingaskeiði. Jafnvel hjá konum sem hafa ekki upplifað hann fram að því. Það sem áður var auðvelt getur núna virst óyfirstíganlegt. Eða þú ferð að hika og fresta hlutum. Hjartsláttur, spennutilfinning, óróleiki – sem virðist...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.