Matur sem meðal

Við erum öll með okkar eigið persónulega samband við mat.  Sumir missa matarlystina ef maturinn heitir hollusta og aðrir leggja mikið upp úr hreinu mataræði.  Sumir borða hollan mat en eru samt að glíma við heilsuvandamál. Jógafræðin kenna okkur að maturinn geti verið meðal – bæði fyrir líkama og sál.  Þau fjalla líka um það að enn mikilvægara en hollt fæði og lífsstíll, sé hugarfarið – það hvernig okkur líður og hvernig við horfum á lífið. Og þetta styður hvað annað. Ef okkur líður vel og við erum í jafnvægi þá sækjum við frekar í það sem er nærandi og jafnvægisgefandi. Þeir sem stunda jóga þekkja það hvernig jógaiðkun fer smám saman að smitast út í daglegt líf og allt í einu förum við að sækja meira í það sem gefur okkur vellíðan.

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna eru mjög heillandi heimur sem kennir okkur að lifa í takti við okkar eigin innra eðli. Þau kenna okkur að fylgja árstíðunum og daglegum rytma – og að hlusta á líkamann. Við eigum það stundum til að borða með huganum og týna sambandinu við líkamann. Eftir því sem við öðlumst betra samband við hvað við þurfum þá fer hugurinn að fylgja með og við förum að sækja í það sem er gott fyrir okkur.

Bragðtegundirnar sex: Eitt af því sem ayurvedafræðin kenna okkur er að nota bragð sem meðal. Þegar bragð er notað í réttum hlutföllum hvert um sig og saman – þá hefur það jafnvægisgefandi áhrif á líkamann. Bragðtegundirnar eru sex: Sætt, súrt, salt, sterkt, beiskt og samanherpandi. Mismunandi hópar af bragðlaukum á tungunni skynja bragð og senda skilaboð til heilans.  Þaðan fara út skilaboð sem ekki bara hafa bein áhrif á meltinguna heldur hefur líka áhrif á allar “líkamsgerðirnar”* og allar frumur líkamans, vefi, líffæri og líffærakerfi. Lesa meira