Ayurveda

9343065_xlAyurveda byggir á heildrænni sýn á manneskjuna og náttúruna og sýnir okkur hvernig maður og náttúra eru fléttuð saman í eina heild. Samkvæmt vísindum ayurveda eru frumöflin fimm – jörð, vatn, eldur, loft og ljósvaki (eter) til staðar í okkur öllum. Eldurinn sem brennur innan í jörðinni er lika í maganum á okkur, jörðin sem veitir líf er líka hluti af okkur, loftið umhverfis okkur er líka innra með okkur. Þessi fimm frumefni birtast í okkur í 3 megin orkuformum; VATA, PITTA OG KAFFA.

VATA er til sem allt loftið sem við geymum í tómum rýmum í líkamanum. Vata gefur okkur hreyfingu og jafnvægi bæði á huga, líkama og tilfinningar, aðlögunarhæfni, sköpun, áhuga og skilning.

PITTA þýðir kraftur meltingarinnar eða hitans – það sem fær hluti til að þroskast og meltast. Pitta hjálpar okkur að melta bæði mat, hugmyndir og tilfinningar og gefur okkur gáfur, hugrekki og lífsorku.

KAFFA er það sem fær hluti til að loða saman og er líkamlegt ílát fyrir pitta og vata eða orku og hita. Kaffa gefur okkur tilfinningu og tilfinningar, ást og umhyggju og tengir okkur við aðra.  Kaffa hjálpar okkur að halda í það sem við höfum eignast eða framkvæmt.

Hver manneskja er með sitt persónulega jafnvægi milli VATA, PITTA OG KAFFA. Það sem við borðum, drekkum, hugsum, hvernig daglegur taktur okkar er; allt þetta og margt fleira hefur áhrif á þetta jafnvægi. Með því að læra að þekkja grunnlíkamsgerð okkar og hvað við þurfum að gera til að halda jafnvægi getum við sjálf skapað okkur heilbrigðan líkama og hamingjusama sál.

JAFNVÆGI: Við erum eins og þrífótur – líkami, hugur og sál. Í vestrænum lækningum erum við með mismunandi lækna fyrir hvern líkamshluta. Hjartalæknirinn spyr okkur um kólesteról – ekki ástarmálin okkar. Í Ayurveda meðhöndlum við alltaf heildina og sjúkdómsgreiningin er alltaf sú sama: “Ójafnvægi”. Verkefnið sem við fáum er síðan að taka skref í átt að því að koma okkur nær því að vera í jafnvægi og í takti við okkur sjálf og náttúruna. Það eru tvær megin ástæður fyrir ójafnvægi; ytri aðstæður – árstíðarbreytingar, mengun, sýking.  Innri aðstæður – aðallega uppsöfnun eiturefna.  Ytri aðstæður hafa mun minni  áhrif ef við pössum upp á innri aðstæður.